Búið er að hrinda af stað samráðsverkefninu “ Betri Garðabær “ sem er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ.

HUGMYNDASÖFNUNARVEFUR – SMELLTU HÉR TIL AÐ SENDA INN HUGMYND

Betri Garðabær!

Verkefnið hófst í mars 2019 og lýkur að hausti 2020. Gert er ráð fyrir 100 milljónum króna til verkefnisins. Garðabær verður allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda verður leitast við að tryggja að verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins. Áhersla er lögð á að verkefnið er þróunarverkefni sem verður þróað áfram með íbúum út frá reynslu, ábendingum og þátttöku.  

Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði, þátttökufjárhagsáætlunargerð og að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði. 

HUGMYNDASÖFNUNARVEFUR – SMELLTU HÉR TIL AÐ SENDA INN HUGMYND

Verkáætlun og tímasetningar

Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun; umræða um hugmyndir og úrvinnsla; kosningar og framkvæmd. 

Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:

 • Kynningarfundur fyrir íbúa 20. mars 2019 kl. 17:15 í Flataskóla.
 • Hugmyndasöfnun í tvær vikur, 14. mars – 1. apríl 2019.
 • Hugmyndir metnar af matshópi verkefnisins sem leggur mat á kostnað við hönnun og framkvæmd.
 • Ákveðnum fjölda hugmynda stillt upp til kosninga.
 • Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda  23. maí – 3. júní 2019.
 • Framkvæmdir frá 10. júní 2019 til 31. ágúst 2020.

Hugmyndasöfnun 14. mars-1. apríl 2019

Hugmyndasöfnunarvefur – smelltu hér til að senda inn hugmynd

Óskað er eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar.

Verkefnin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að geta átt möguleika á að fara í kosningu:

 • Nýtast hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
 •  Vera til fjárfestingar en ekki rekstrar.
 •  Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
 •  Kostnaður einstakra verkefna taki ekki of stóran hluta af heildar fjármagni verkefnisins.
 •  Tillögur samræmist skipulagi og/eða stefnu bæjarins.
 •  Vera á fullu forræði Garðabæjar og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélög.
 •  Varði ekki öryggismál sem falla undir lögbundið hlutverk Garðabæjar.

Hver hugmynd þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd.

Þegar hugmynd er sett inn á hugmyndavefinn sem opnar 14. mars þarf fyrst að skrá sig á vefinn og huga að því að heiti hugmyndar, staðsetning og lýsing sé skýr. Með sama hætti er hægt að bæta við rökstuðningi hugmyndar, mynd og myndbandi.

Matshópur

Matshópur er skipaður starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs Garðabæjar með aðkomu annarra sviða bæjarins. Eftir að hugmyndasöfnun lýkur fer matshópur yfir innsendar hugmyndir út frá skilyrðum verkefnisins og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn verði dreift landfræðilega jafnt um sveitarfélagið.

Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum varðandi hverja hugmynd og útfært hugmyndirnar í samvinnu við íbúa. Garðabær áskilur sér rétt til að útfæra hugmyndir íbúa nánar ef þess þarf. 

Þær hugmyndir sem eru óframkvæmanlegar eða ef kostnaður einstakra verkefna taka of stóran hluta af heildar fjármagni verkefnisins og sem ekki næst með góðu móti að aðlaga kröfunum í samtali matshóps við hugmyndahöfunda, detta sjálfkrafa út og fara ekki í kosningu.

Kosning 23. maí- 3. júní 2019

Þegar verkefnum hefur verið stillt upp á kjörseðil hafa íbúar, sem verða 15 ára á kosningaárinu og eldri, með skráð lögheimili í Garðabæ tækifæri til að úthluta allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin. Gera má ráð fyrir að um það bil 30 verkefni verði á kjörseðli. 

Valið fer fram á sérstöku vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti (með Íslykli eða rafrænum skilríkjum) og þar sem atkvæði er dulkóðað. Þannig er aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga. 

Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012.

Framkvæmd verkefna

Verkefni verða hönnuð, boðin út og framkvæmd frá sumri 2019 og fram á árið 2020 eftir umfangi verkefna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í síðasta lagi 31. ágúst 2020. Upplýsingar um stöðu framkvæmda verða aðgengilegar á vef Garðabæjar og verða uppfærðar á þriggja mánaða fresti.
Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og íbúa um útfærslu verkefna.

Þeim hugmyndum sem ekki ná kosningu verður komið í ákveðinn farveg hjá Garðabæ, t.d. sem ábendingum til fagnefnda eða sem innleggi í skipulagsumræðu.

Hvað ef ég get ekki notað samráðsvefinn?

 Hægt er að hafa samband við þjónustuver Garðabæjar í síma 525 8500 og óska eftir aðstoð. 
Öllum stendur til boða að nota almenningstölvur í Bókasafni Garðabæjar, Garðatorgi og Álftanesútibúi, og þjónustuveri bæjarskrifstofa Garðabæjar á afgreiðslutíma þessara stofnana.

Þeir sem ekki geta sett fram hugmyndir á samráðsvef, s.s. vegna fötlunar, býðst á meðan á hugmyndasöfnun stendur að senda hugmyndir sínar með tölvupósti á gardabaer@gardabaer.is eða með pósti stíluðum á Betri Garðabær, Bæjarskrifstofum Garðabæjar, Garðatorgi 7, 210 Garðabær.  

garðabæar.is