Fór leikurinn fram á Akureyri og endaði 28:28 en Stjarnan hafði rótburstað KA-menn fyrr í vetur í Garðabænum.
Leikurinn var sérlega mikilvægur fyrir liðin. Bæði voru með tólf stig fyrir leikinn og sigurvegarinn myndi slíta sig betur frá botnbaráttunni og jafnframt koma sér í meiri séns á að ná sæti í átta liða úrslitakeppninni.
Fyrri hálfleikur var ein skemmtun frá upphafi til enda. Stjarnan byrjaði betur og komst strax í 2:0. Hinn nýbakaði faðir, Jovan Kukobat, í marki KA hrökk þá í gang og KA-menn sneru leiknum sér í vil. Stjarnan tók leikhlé í stöðunni 6:4 og tók eftir það mikinn sprett. KA-menn voru í miklum vandræðum með að komast í gegnum varnarmúr Stjörnunnar og allt í einu leiddu gestirnir 11:8. KA náði loks að höggva á einhvern hnút og jafnt var í hálfleik, 13:13.
KA byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst í 17:15. Þá brá Rúnar Sigtryggsson á það ráð að senda son sinn á vettvang, en hann er aðeins 16 ára. Andri Már Rúnarsson kom ferskur inn og Stjarnan sneri leiknum sér í hag. KA var í tómu tjóni á kafla en náði sér aftur í gang og jafnaði leikinn 24:24 þegar skammt var eftir. Á lokakaflanum leiddu bæði lið en KA kreisti fram jafntefli með því að skora úr víti skömmu fyrir leikslok. Lokatölur urðu 28:28 og verður jafnteflið að teljast sanngjarnt. Hvort lið fær stig og er í örlítið betri stöðu gagnvart fallsætunum en fyrir leik.