Stjarn­an tryggði sér í kvöld sæti í undanúr­slit­um bik­ar­keppni kvenna í hand­knatt­leik, Coca Cola-bik­arn­um, eft­ir sig­ur á Hauk­um í átta liða úr­slit­un­um, 23:22. Um æsispenn­andi leik var að ræða þar sem úr­slit­in réðust í fram­leng­ingu.

Fyrri hálfleik­ur var kafla­skipt­ur. Stjarn­an byrjaði frá­bær­lega og skoraði fjög­ur fyrstu mörk leiks­ins, áður en allt hrökk í baklás. Garðbæ­ing­ar skoruðu ekki næstu 17 mín­út­urn­ar, fengu sex mörk í röð á sig og þurftu að elta mikið í kjöl­farið.

Eft­ir slæma byrj­un náðu Hauk­ar und­ir­tök­un­um án þess þó að hrista Stjörn­una af sér. Staðan 11:9 í hálfleik fyr­ir Hauka.

Stjarn­an byrjaði seinni hálfleik­inn vel og jafnaði fljótt met­in. Ólíkt fyrri hálfleikn­um gekk liðinu bet­ur að halda dampi og leik­ur­inn var hníf­jafn og spenn­andi. Þegar sjö mín­út­ur voru eft­ir komst Stjarn­an yfir, 18:17, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 4:3 og allt í járn­um fyr­ir loka­mín­út­urn­ar.

Bæði lið fengu tæki­færi til að skora á síðustu mín­út­unni í stöðunni 19:19. Allt kom fyr­ir ekki, leiktím­inn rann út og því þurfti að fram­lengja.

Fram­leng­ing­in var gríðarlega jöfn en sig­ur­mark Stjörn­unn­ar skoraði Þórey Anna Ásgeirs­dótt­ir úr ví­tak­asti. Loka­töl­ur 23:22 og Stjarn­an fer í undanúr­slit í Laug­ar­dals­höll­inni.

Stef­an­ía Theó­dórs­dótt­ir og Þórey Anna Ásgeirs­dótt­ir skoruðu sjö mörk fyr­ir Stjörn­una. Maria Ines Pereira var marka­hæst hjá Hauk­um með sex mörk. Markverðir liðanna áttu svo stór­fína leiki. Ástríður Gló­dís Gísla­dótt­ir í marki Hauka og Hild­ur Ein­ars­dótt­ir í marki Stjörn­unn­ar vörðu báðar 20 skot.