Haukar og Stjarnan skyldu jöfn, 25-25, í 15. umferð Olís-deildar kvenna á Ásvöllum í kvöld. Gestirnir leiddu með einu marki í hálfleik 12-13. 

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan 7-7 eftir fyrsta stundarfjórðunginn. Góðu kafli gestanna kom þeim í tveggja marka forystu 9-11 en Haukar náðu að jafna leikinn í stöðunni 12-12. Stjarnan skoraði svo loka mark fyrri hálfleiks og leiddi því að honum loknum, 12-13. 

Heimakonur byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu þriggja marka forystu á fyrstu mínútunum eftir 5-1 kafla. Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, tók þá leikhlé sem breytti gangi leiks. Gestirnir snéru þá leiknum sér í hag og náðu aftur forystunni í stöðunni 18-19. 

Leikurinn var jafn eftir það og niðurstaðan nokkuð sanngjarnt jafntefli. Stjörnukonur geta kannski verið aðeins svekktari með að hafa ekki klárað leikinn , þær fengu tvö tækifæri til þess á loka mínútunni en Saga Sif Gísladóttir, markvörður Hauka lokaði markinu og skilaði sínu liði einu stigi. Lokatölur á Ásvöllum 25-25. 

Af hverju varð jafntefli?
Leikurinn var jafn frá upphafi og stefndi allt í að loka niðurstaðan yrði jöfn. Stjarnan var ívið betri aðilinn og fara svekktari frá borði í kvöld. 

Hverjar stóðu upp úr?
Í liði Hauka bar Maria Ines höfuð og herðar yfir aðra leikmenn en hún bar af varnar og sóknarlega. Hún var markahæst með 9 mörk. 

Hjá Stjörnunni var Stefanía Theodórsdóttir markahæst með 6 mörk en heilt yfir var það reynsluboltinn Kristín Guðmundsdóttir sem stóð upp úr. 

Hvað gekk illa? 
Stjörnunni gekk illa að halda forystu, þær náðu oft góðum tökum á leiknum en misstu forystuna alltaf niður í jafntefli. Hjá Haukum vantaði aðeins uppá bæði varnar og sóknarlega en þær gerðu sér þetta of erfitt í kvöld. 

Hvað er framundan? 
Stjarnan fær annað verðugt verkefni í næstu umferð er þær mæta toppliði Vals. Haukar fá Selfoss í heimsókn. 
 

Elías Már: Feginn að hafa ekki tapað þessum leik
„Klárlega sanngjörn niðurstaða“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka. 

„Ég átti alveg eins von á þeim svona, við erum búin að vinna þær tvisvar sannfærandi í vetur og eg vissi alveg að þær myndu koma grimmar til leiks. Þær eru með fullt af góðum leikmönnum.“

„En ég vil bara fókusa á frammistöðuna hjá mínum leikmönnum og mér fannst hún ekki góð. Það vantaði svona 30% uppá fannst mér, vorum hægar í sókn, linar í vörn og fengum þar af leiðandi ekki nægilega mikla markvörslu. Ég held að við getum bara prísað okkur sæla að hafa fengið þetta stig.“ sagði Elías ekki sáttur með leik liðsins í kvöld 

„Klárlega sanngjörn niðurstaða, ég er bara feginn að hafa ekki tapað þessum leik. Mér fannst við bara slakari, með fullri virðingu fyrir Stjörnunni þá voru þær að berjast allan tímann og gera þetta af krafti en við eigum inni. Við verðum að gefa allt í þessa leiki ef við ætlum að vinna þá, við gerðum það ekki í dag og þess vegna unnum við ekki.“ sagði Elías að lokum
 

Basti: Við áttum að vinna þennann leik
„Ég er mjög svekktur með að hafa ekki unnið þennann leik“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum

„Ég trúi nátturlega ekkert á óheppni en það voru nokkur smáatriði til eða frá í kvöld en mér fannst við eiga skilið að vinna þennann leik með 5 til 6 mörkum.“ sagði Basti sem segist vera ánægður með framfarirnar sem liðið hans hefur sýnt undanfarið

„Búast ekki öll topplið við því að vinna alla leiki, þess vegna eru þau topplið. Við ætluðum líka að vinna hérna. Við erum að spila þriðja leikinn við Hauka, fyrst töpuðum við með 14 mörkum, síðan 5 mörkum og núna gerðum við jafntefli, ég myndi segja að framfarirnar eru miklar okkar meginn og við erum að læra.“

„Mér fannst þær þurfa að hafa alveg ofboðslega mikið fyrir sínum mörkum og við svo sem líka en minna en oft áður. Það er flottur stígandi á liðinu og ég veit að það er lítið eftir af tímabilinu en þetta sýnir að við erum að gera góða hluti. Tímabilið er ekki búið og á meðan við eigum tölfræðilega möguleika á því að ná úrslitakeppni þá reynum við það.“ sagði Basti að lokum 

visir.is