„Við spiluðum stór­kost­leg­an varn­ar­leik en við vor­um í ákveðnum vand­ræðum í sókn­ar­leikn­um enda eru þær með frá­bæra vörn og frá­bær­an mark­mann,“ sagði Sebastian Al­ex­and­ers­son, þjálf­ari Stjörn­unn­ar, í sam­tali við mbl.is eft­ir 19:16-tap liðsins gegn Val í 13. um­ferð Olís­deild­ar kvenna í hand­knatt­leik á Hlíðar­enda í kvöld.

„Við héld­um Valsliðinu í 19 mörk­um sem er frá­bært. Þær prófuðu all­ar út­færsl­ur í sókn­ar­leikn­um og ég er virki­lega ánægður með vinnu­fram­lag stelpn­anna í þess­um leik. Ég hefði viljað sjá okk­ur nýta hraðaupp­hlaup­in okk­ar bet­ur en því miður þá feng­um við ekki opn­an­irn­ar sem við vor­um að leita að í sókn­ar­leikn­um. Þær spiluðu nán­ast með tærn­ar á sex metra lín­unni og það var erfitt. Við náðum ekki að opna lín­una né horn­in en það má ekki gleyma því að Val­ur er með eina bestu vörn­ina í deild­inni.“

Stjarn­an er í sjötta sæti deild­ar­inn­ar með 9 stig en Basti er sátt­ur með þann stað sem liðið er á í dag.

„Við erum á réttri leið. Þetta var fyrsti tap­leik­ur­inn okk­ar síðan í nóv­em­ber og við meg­um vera svekkt­ir að hafa ekki gert bet­ur í dag gegn frá­bæru liði. Ég hef sagt það áður að Val­ur, Fram og Hauk­ar eru í sér­flokki í þess­ari deild og við hin þurf­um bara að elta þessi lið eins og staðan er í dag,“ sagði Sebastian Al­ex­and­ers­son í sam­tali við mbl.is.