Garðabær tekur virkan þátt í verkefni Embættis landlæknis um Heilsueflandi samfélag og býður því bæjarbúum upp á ókeypis heilsufarsmælingu. Boðið verður upp á mælingu í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi laugardaginn 26. janúar frá kl. 10-13 og í íþróttamiðstöðinni í Ásgarði laugardaginn 2. febrúar frá kl. 10-13.

  • Heilsueflandi samfélag

Heilsa og heilbrigði er lykillinn að góðum lífsgæðum. Garðabær leggur sig fram um að sinna jafnt líkamlegu og andlegu heilbrigði bæjarbúa. Heilbrigði snýr ekki bara að líkamlegri vellíðan heldur einnig andlegri og félagslegri. Sveitarfélagið tekur virkan þátt í verkefni Embættis landlæknis um Heilsueflandi samfélag og býður því bæjarbúum upp á ókeypis heilsufarsmælingu. Boðið verður upp á mælingu í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi laugardaginn 26. janúar frá kl. 10-13 og í íþróttamiðstöðinni í Ásgarði laugardaginn 2. febrúar frá kl. 10-13.

Bætt aðstaða til hreyfingar

Áhersla hefur verið lögð á að bæta aðstöðu og aðgengi allra íbúa Garðabæjar til að stunda hreyfingu. Enda hreyfing lykillinn að bættri líðan. Nýir göngustígar hafa verið gerðir og merkingar á gönguleiðum bættar, jafnframt er hægt að hala niður appi (wapp) í snjalltæki sem sýnir gönguleiðir innan bæjarmarkanna. Opnir hreystivellir hafa verið settir upp við göngustíga, einn við Arnarneslækinn, annar við enda Sunnuflatar og sá þriðji við Álftaneslaug. Opnunartími sundlauga hefur verið lengdur og aðgengi bætt, frítt er í sund fyrir 17 ára og yngri sem og 67 ára og eldri. Tekinn hefur verið í notkun frisbígolfvöllur við Vífilsstaði sem er opinn almenningi og hjólabraut sett upp við Garðaskóla.

Hver íbúi þarf að taka ábyrgð á sinni heilsu. Garðabær mun leggja sig fram um að haga aðstæðum þannig að hver og einn geti notið sín sem best og fundið sér heilsurækt við hæfi. Hluti af því er að byggja upp aðstöðu með góðu aðgengi, hvetja fólk til þátttöku og fræða um holla lifnaðarhætti.

Mætum í mælingu

SÍBS Líf og heilsa er forvarnaverkefni um heilbrigði og lífsstíl þar sem SÍBS ásamt Samtökum sykursjúkra, Hjartaheill og Samtökum lungnasjúklinga bjóða almenningi ókeypis heilsufarsmælingu í samstarfi við Heilsueflandi samfélag í Garðabæ. 

Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og fleira, auk þess sem þátttakendum er boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar sem snertir á flestum áhrifaþáttum heilbrigðs lífs.

Mætum í mælingu og setjum HEILSUNA í fyrsta sæti á nýju ári!

gardabaer.is

Auglýsingin