Aron Dagur Pálsson leikmaður Stjörnunnar í harðri baráttu í leiknum í dag.
Aron Dagur Pálsson leikmaður Stjörnunnar í harðri baráttu í leiknum í dag

Stjarnan nældi sér í sín fyrstu stig í dag þegar liðið vann 10 marka sigur á KA, 31-21. KA sá aldrei til sólar í leiknum og var staðan í hálfleik, 19-12.

Fyrstu mínúturnar voru rólegar á meðan liðin voru að finna taktinn. Þegar Stjarnan fann taktinn þá tóku þeir öll völd á vellinum og hleyptu KA aldrei inní leikinn. Með 8-1 kafla breytti Stjarnan stöðunni úr 11-9 í 19-10. Stefán Árnason, þjálfari KA, nýtti bæði leikhlé liðsins en fékk lítið í staðinn frá sínu liði sem virtist engin svör finna hvorki í vörn né sókn. Garðbæingar leiddu leikinn með sjö mörkum þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 19-12.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, náði að halda sínum mönnum á tánum í seinni hálfleik. Liðið hélt áfram að spila góðan leik og misstu þeir forystuna aldrei niður fyrir átta mörk, en tólf marka munur var á liðunum þegar mest lét. Sanngjarn sigur Stjörnunnar í dag, lokatölur 31-21. Mikilvæg tvö stig í Garðabæinn.

Bára Dröfn, ljósmyndari Vísis, var í TM höllinni í dag og tók myndirnar sem sjá má í fréttinni.

VÍSIR/BÁRA

Af hverju vann Stjarnan?
Stjarnan mætti til leiks og spiluðu frábæran handbolta í 55 mínútur. Það tók þá smá tíma að finna taktinn en þegar þeir fundu hann var ekki aftur snúið. Vörnin var þétt, sóknarleikurinn agaður og Sveinbjörn Pétursson var frábær í markinu. Þrátt fyrir frábæran leik Stjörnunnar í dag þá var leikur KA alls ekki góður.

Hverjir stóðu upp úr?
Egill Magnússon var frábær í liði Stjörnunnar bæði í vörn og sókn, en hann var markahæstur og skoraði 11 mörk. Vörnin í heild sinni var einnig mjög góð og ásamt Agli má hrósa þeim Aroni Degi Pálssyni og Bjarka Má Gunnarssyni. Þá var Sveinbjörn Pétursson, markvörður liðsins, góður í dag með yfir 40% markvörslu.

Lið KA var ekki gott í dag en Tarik Kasumovic var þar markahæstur með 9 mörk, hann reyndi hvað hann gat.

Hvað gekk illa?
Þegar Stjarnan tók öll völd á vellinum hrundi leikurinn í heild sinni hjá KA. Þeir spiluðu enga vörn, sóknarleikurinn var fyrirsjánlegur og þeir fundu engin svör við þéttri vörn Stjörnunnar. Leikmaður september mánaðar, Áki Egilsnes, fann sig engan veginn í dag og það munar um það fyrir Akureyringa.

Hvað gerist næst?
Stjarnan á erfiðan leik í næstu umferð er þeir mæta Haukum. Ef þeir spila eins og þeir gerðu í dag þá eru þeir í góðum málum. KA fær ÍR í heimsókn, það gæti orðið áhugaverður leikur á Akureyri, ÍR hefur spilað vel en þó aðeins unnið einn leik.

VÍSIR/BÁRA

Stefán: Við náðum aldrei að stoppa blæðinguna
„Þetta varð aldrei leikur“ sagði  Stefán Árnason, þjálfari KA

„Þeir voru fljótir að komast í góðan mun sem jókst bara þegar leið á fyrri hálfleikinn. Við náðum aldrei að stoppa blæðinguna. Varnarleikurinn hjá okkur í fyrri hálfleik var bara þannig að þeir gátu gert það sem þeir vildu. Öll mörkin þeirra voru alltof auðveld.“ sagði Stefán sem var ósáttur með varnarleikinn hjá sínu liði en segir þó að sóknin hafi alls ekki verið góð heldur

„Það var ýmislegt að í sókninni hjá okkur líka en það var alveg viðbúið að Stjörnumenn yrði firna sterkir í dag. Mér fannst þeir ná að skora alltof auðveld mörk á köflum. Það er alveg klárt að við getum ekki leyft liðum að skora svona auðveldlega eins og þeir gerðu í dag.“

KA byrjaði tímabilið vel og vann fyrstu tvo leiki sína, gegn Akureyri og svo stór sigur á Haukum. Liðið hefur nú tapað síðustu þremur leikjum en Stefán vill ekki meina að um heppni hafi verið að ræða, heldur geti þeir sýnt að þeir eigi heima í efstu deild.

„Þetta er fyrsti leikurinn af þessum fyrstu fimm þar sem við eigum ekki séns á að vinna. Hinir fjórir hafa verið hörku leikir þar sem við hefðum getað gert betur. Hins vegar er alveg ljóst að í þessum fyrstu tveimur leikjum okkar vorum við afslappaðari og yfirvegaðir, í dag og á móti Gróttu í síðustu umferð þá vorum við taugastrektir og virkuðum hræddir. Við erum lang bestir þegar að við förum “all-in” og sækjum stíft.“ sagði Stefán sem er spenntur fyrir næsta leik gegn ÍR á Akureyri

„Við höldum áfram, tökum þetta leik fyrir leik. Við erum nýliðar í deildinni og viljum sanna það að við eigum heima í þessari deild og erum spenntir fyrir næsta leik.“ 


Rúnar: Loftið er farið úr blöðrunni hjá þeim
„Ég er ánægður með hvernig við gerðum þetta í dag“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Það var óöryggi í upphafi leiks þar sem þeir hafa ekki náð að klára leik fram að þessu, svo það var smá sviðsskrekkur. Við vorum ekki nógu beittir til að byrja með en svo seinna korterið í fyrri hálfleik þá fór þetta að rúlla mjög vel hjá okkur.“

„Svo er ég ánægður með það hvernig strákarnir mættu út í seinni hálfleikinn. Við gáfum KA ekki tækifæri á að koma inní leikinn. Svo hefðum við alveg getað klárað leikinn með meira krafti en það þarf líka að spila leikmenn í form, flestir fengu 60 mínútur í dag.“ sagði Rúnar sem þakkar hugarfari strákanna sigurinn í dag

„Hugarfarið er ástæðan fyrir þessum sigri. Það er alveg klárt á pappírum að við eigum að vera betra lið en KA. Þeir byrjuðu tímabilið voða vel en það virðist vera að loftið sé aðeins farið að fara úr blöðrunni hjá þeim og við ætluðum að nýta okkur það. Það sem skóp sigurinn var svo að við vorum að spila vel sóknarlega, það var agi og við vorum ekki að missa boltann í einhverju óðagoti og gáfum þeim þar af leiðandi ekki kost á hraðaupphlaupum.“ sagði Rúnar að lokum