Stjarnan vann sjö marka sigur á HK, 26-19, í Olís-deild kvenna í kvöld. Stjarnan náði því að hefna fyrir skellinn gegn Fram í síðustu umferð.

Í síðustu umferð tapaði Stjarnan með 23 marka mun, 47-24, og þær voru í vandræðum í fyrri hálfleik í kvöld. HK leiddi í hálfleik, 11-10.

Í síðari hálfleik voru heimastúlkur í Garðabæ sterkari og þá sér í lagi á síðustu tíu mínútum leiksins þar sem þær voru mun sterkari. Lokatölur 26-19.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Þórhildur Gunnarsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir skoruðu fimm mörk fyrir Stjörnuna. Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar sem er með þrjú stig eftir fjóra leiki.

Í liði HK var Sigríður Hauksdóttir í sérflokki. Hún skoraði níu mörk en næst kom Dajana Jovanovska með fjögur mörk. HK er með fjögur stig af átta mögulegum.