VÍSIR/ERNIR

Það var mikið um dýrðir þegar FH og Stjarnan mættust í 4. umferð Olísdeildarinnar í kvöld. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en eftir því sem leið á náðu FH-inga að bæta í forystuna.

Staðan í hálfleik var 16-12 fyrir FH en aldrei náðu þér að slíta Stjörnuna nægilega vel frá sér í leiknum. Mest náðu heimamenn fimm marka forystu en eftir það fóru Stjörnumenn að saxa á forystuna hægt og rólega.

Egill Magnússon var algjörlega magnaður í lið Stjörnunnar í kvöld en hann skoraði 14 mörk í leiknum.

Eins og fyrr segir voru allnokkrir leikmenn mjög ósáttir við dómgæsluna í leiknum en Rúnar Sigtrygsson þjálfari Stjörnunnar sagði í viðtali við Vísi eftir leikinn að honum hafi þótt dómgæslan hræðileg.

Stjarnan missti þrjá menn útaf á sama tíma um miðjan seinni hálfleik og misstu FH-inga aðeins frá sér á þeim tímapunkti. Þeir voru þó fljótir að vinna það upp.

Staðan var 27-27 á 58. mínútu leiksins þegar Ágúst Birgisson fékk sendingu inná línuna og brást ekki bogalistinn. Stjarnan hélt í sókn og freistaði þess að jafna metin en Ari Magnús tapaði boltanum en vildi meina að á sér hafi verið brotið.

FH tók því langa sókn við lítinn fögnuð leikmanna og þjálfara Stjörnunnar. Lokatölur 28-27 en Stjarnan leitar enn að sínum fyrsta sigri þegar fjórar umferðir eru búnar af mótinu.

Afhverju vann FH?
FH náði nokkra marka forystu strax í byrjun leiksins og héldu henni fram að hálfleik. Eftir hálfleik saxaði Stjarnan á forystuna og komu sér inn í leikinn. Með undarlegum ákvörðunum dómaranna sveiflaðist leikurinn með því.

Að lokum voru það reynslumiklir menn FH sem náðu að stýra sigrinum í höfn með öllum trixunum úr bókinni, við litla hrifningu gestanna.

Hverjir stóðu uppúr í kvöld?
Egill Magnússon var algjörlega magnaður í kvöld. Skorar fjórtán mörk í leiknum og var sá leikmaður sem hélt Stjörnunni inní leiknum uppá sínar eigin spýtur. Egill var ekki bara frábær í sóknarleik Stjörnunnar í kvöld en hann stóð vaktina einnig vel í vörninni.

Leó Snær hornamaður Stjörnunnar var einnig drjúgur en hann skoraði sjö mörk. Hjá heimamönnum var Ágúst Birgisson flottur en hann olli miklum usla  í varnarleik Stjörnunnar.

Hvað gekk illa?
Dómgæslan var ekki uppá tíu í kvöld en mikið var af ansi umdeildum ákvörðunum og báðir þjálfarar liðanna tjáðu sig sérstaklega um dómgæsluna í viðtölum eftir leikinn. Svo virðist að dómarar leiksins hafi verið ósamrýmdir í ákvörðunum sínum sem olli mikilli óánægju meðal leikmanna.

Sóknarleikur liðanna var oft á tíðum ansi undarlegur í kvöld en nokkrir leikmenn reyndu ansi oft skot á markið úr erfiðum og óþörfum stöðum.

Hvað gerist næst?
Stjarnan leitar enn að sínum fyrsta sigri en þeir mæta nýliðum KA í næstu umferð deildarinnar. Egill Magnússon sagði eftir leikinn í kvöld að þessi leikur hafi verið framfararskref hjá liðinu og að hann væri bjartsýnn á framhaldið.

FH fer til Benfica þar sem þeir spila tvo leiki í EHF-keppninni áður en að þeir mæta Selfyssingum þann 20. október. Eftir leiki kvöldsins sitja FH-ingar í 2. sæti deildarinnar.

Halldór hvetur sína menn til dáða.VÍSIR/BÁRA

Halldór Jóhann: Sumar ákvarðanir alveg glórulausar
„Við gerðum okkur erfitt fyrir í seinni hálfleik. Mér fannst við vera við vera mjög góðir í fyrri hálfleik, sérstaklega varnarlega. Það var mikill agi en við vorum að klikka svo lítið í byrjun á skotunum,” sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir sigurinn.

„Við hefðum viljað vera 6-7 mörkum yfir í hálfleik vegna þess að Stjörnuliðið er alltaf hættulegt, þeir eru komnir með alla sína menn til baka. Við vissum að þeir ætluðu að bíta frá sér og því var þetta bara þeim um skemmtilegra að klára þetta í lokin.”

„Við vorum sjálfum okkur verstir þegar við missum niður forystuna. Við misstum aðeins fæturnar í vörninni og á sama tíma smá óðagot á okkur sóknarlega. Ég er bara heilt yfir mjög ánægður með það hvernig við klárum leikinn.”

„Við lendum tveimur mörkum undir á síðustu átta mínútum leiksins og við komum til baka. Þetta mátti ekki tæpara standa. Ég er virkilega sáttur að klára þetta gegn góðu Stjörnuliði.”

„Þeir eru búnir að tapa öllum sínum leikjum en þeir voru komnir með alla sína menn til baka í dag og við vissum að þeir yrðu sterkir.”

Halldór vill ekki tjá sig um dómgæsluna í leiknum en segir þó að dómgæslan hafi bitnað meira á Stjörnunni heldur en hans liði.

Á tímabili í síðari hálfleik voru Stjörnumenn þremur mönnum færri en þrír leikmenn þeirra fengu tveggja mínútna brottvísun á svipuðum tíma. Halldór segir að það hafi kveikt í Stjörnunni:

„Já, við skorum þrjú mörk á þessum kafla en síðan missum við það bara aftur niður, við vorum ekki nógu klókir. Ég ætla ekkert að tjá mig um hvernig dómgæslan var en það voru nokkrar ákvarðanir alveg glórulausar. Það bitnaði kannski meira á þeim heldur en okkur. Þegar það verða sveiflur í þessu þá verða sveiflur í leiknum.“

FH heldur nú út til Portúgals þar sem að þeir mæta Benfica í EHF-keppninni. Halldór segist spenntur fyrir þeim viðureignum.

„Á föstudaginn fljúgum við til Benfica og spilum þar tvo leiki á móti ógnarsterku liði. Þetta er frábært verkefni fyrir allan hópinn á móti mjög sterku liði. Þeir eru búnir að mæta við sig mjög sterkum leikmönnum frá því í fyrra.”

„Þeir eru komnir með makedónískan landsliðsmarkmann og svo frönskum landsliðsmanni. Þeir eru með leikmenn að spila í bestu landsliðum í heimi. Það verður gaman að mæla sig við þessi lið,” sagði Halldór Jóhann í kvöld.

visir.is