Mikið var undir þegar Stjörnumenn komu í heimsókn til Vestmannaeyja. Fyrir leikinn voru 3 stig milli gestanna og Valsmanna, sem voru á toppnum og ljóst var að þeir ætluðu sér að taka öll 3 stigin og pressa á toppliðið. Gestgjafarnir úr Eyjum hafa þó ekki verið þekktir fyrir að gefa eitt né neitt á Hásteinsvelli.

Leikurinn hófst af krafti og strax á fyrstu mínútu náði Víðir Þorvarðarson fínu skoti sem Haraldur Björnsson varði. Strax á næstu mínútu leit fyrsta gula spjald leiksins ljós og menn voru óhræddir við að henda sér í tæklingar og láta finna fyrir sér. Hilmar Árni Halldórsson átti svo fínt vinstri fótar skot sem fór naumlega framhjá og Gunnar Heiðar Þorvaldsson hjólhestaspyrnu framhjá markinu í sínum síðasta leik á Hásteinsvelli en skórnir fara á hilluna frægu eftir leiktíðina.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum þar sem bæði lið fengu ágætis færi til að brjóta ísinn en þegar hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður dró til tíðinda. Baldur Sigurðsson kom þá boltanum inn á Guðjón Baldvinsson sem var einn gegn Halldóri Páli Geirssyni í marki ÍBV. Halldór kom út á móti og þegar Guðjón setti boltann framhjá honum tók Halldór hann niður og vítaspyrna dæmd. Hilmar Árni var öruggur á punktinum og skoraði, 0-1 fyrir Stjörnumenn.

Eftir þetta tóku gestirnir öll völd og sóttu mikið án þess þó að bæta við. Þeir fóru því með eins marks forskot inn í hálfleik þegar Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, flautaði. Þeir gátu þó prísað sig sæla því rétt undir lok hálfleiks fékk Breki Ómarsson algjört dauðafæri inni í markteig en náði að koma boltanum vel yfir markið.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri þar sem bæði lið fengu færi en þegar klukkutími var liðinn leiks gerði Kristján Guðmundsson breytingu á sínu liði og sendi hinn unga Eyþór Orra Ómarsson inn á völlinn. Það tók hann ekki langan tíma til að setja sitt mark á leikinn en eftir einungis nokkrar sekúndur vann hann boltann af Brynjari Gauta Guðjónssyni, varnarmanni Stjörnunnar. Boltinn barst út til Kaj Leó í Bartalstovu sem fann Sindra Snæ Magnússon við markteiginn. Sindri snéri frábærlega á varnarmann gestanna og lagði boltann með vinstri færi framhjá Haraldi í markinu. Einungis 5 mínútum síðar skoraði Víðir Þorvarðarson svo sigurmark leiksins þegar hann tók boltann viðstöðulaust á lofti fyrir utan teig eftir að varnarmaður Stjörnumanna skallaði boltann út. Víðir setti hann hálfpartinn innarfótar, hárfínt úti við stöng þar sem Haraldur kom engum vörnum við og Eyjamenn komnir yfir.

Eyþór Orri var svo nálægt því að skora þriðja mark ÍBV þegar skalli hans hafnaði í stönginni fjær. Hann var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann tók Alex Þór Hauksson á sprettinum og komst einn gegn Haraldi en færið þröngt og sá Haraldur við honum.
Stjörnumenn reyndu eins og þeir gátu að jafna leikinn en án árangurs. Flottar fyrirgjafir Hilmars Árna voru annað hvort hreinsaðar burt eða fóru einfaldlega gegnum allan pakkann án þess að Stjörnumenn næðu að pota í boltann.

Niðurstaðan því 2-1 sigur ÍBV í stórskemmtilegum leik. Gríðarlega svekkjandi fyrir Garðbæinga þar sem sigur í dag hefði komið þeim upp að hlið Valsmanna eftir að Valsmenn höfðu tapað sínum leik í dag.

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.VÍSIR/BÁRA

Kristján Guðmundsson: Kannski framlengi ég í fjórða árið
 
Kristján Guðmundsson var ánægður í leikslok. ,,Æfingavikan var ekkert sérstök en við skelltum á hjá strákunum í gær að við værum að fara í síðasta heimaleikinn og það þýddi ekkert annað en að ná í stig. Hvort sem það væru 1 eða 3.”
 
,,Við erum komnir með grunnmarkmiðin okkar, sem eru að sjálfsögðu að halda okkur í deildinni en við eigum möguleika á að gera betur og ná í markmiðin að vera aðeins ofar. Við erum allavega komnir með 26 stig sem er einu stigi meira en í fyrra. Eru ekki öll lið að hugsa um eitthvað svona. Það er kominn fínn stöðugleiki í okkur.”
 
,,Við byrjum leikinn vel og gefum tóninn strax í fyrstu sókn. Síðan fær Stjarnan kafla þarna í fyrri hálfleik og skora markið sitt. Síðan komum við aftur inn í þetta með færum og hálffærum fyrir lok hálfleiksins. Við skerptum á því sem við vorum að gera og fínpússuðum litla punkta. Svo í seinni hálfleiknum erum við með þennan leik.”
 
Kristján hefur legið undir feldi með framtíð sína tengdri ÍBV. Gat hann einhverju svarað með þau mál?
 
,,Ég á eitt ár eftir af samning sem er uppsegjanlegur í næstu viku en við erum að ræða saman og við erum að fara að klára það sennilega í þessari viku en hvernig það fer veit ég ekki. Kannski framlengi ég í fjórða árið en maður veit aldrei í þessum efnum. Það kemur í ljós á næstu dögum.”

Rúnar Páll SigmundssonVÍSIR/BÁRA

Rúnar Páll Sigmundsson: Algjör óþarfi að tapa þessum leik
 
,,Þetta er bara hundleiðinlegt,” sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leik. ,,Það var algjör óþarfi að tapa þessum leik. Jafn leikur og mikil barátta. Það er bara fúlt að fá ekki 3 stig. Það er bara þannig. Fyrstu viðbrögð.”
 
Eyjamenn gerðu 2 falleg mörk. Hvað fannst Rúnari um mörkin sem Stjarnan fékk á sig? ,,Feiki vel gert hjá þeim en mér finnst við eigum að koma í veg fyrir þau. Við töluðum um fyrir leikinn að ekki hleypa þeim í skot en við hleypum þeim í 2-3 skot og þeir skora 2 mörk.”
 
,,Já, auðvitað gerir það það,” sagði Rúnar spurður út í hvort tap dagsins svíði ekki meira vegna taps Valsmanna. ,,Við þurfum að klára okkar leiki. Eftir að við urðum bikarmeistarar þá höfum við tapað 5 stigum. Fengið einungis 1 stig úr síðustu 2 leikjum, sem er bara ekki nógu gott. Það var mikill vilji og metnaður í leikmönnum að klára þetta mót almennilega. Við höfum ekki náð dampi eftir að við unnum síðustu helgi, sem er ekki gott en við þurfum að klára þetta mót og klára FH í síðasta leik og sjá hvert það tekur okkur.”
 
,,Við þurfum að fara með bullandi krafti inn í þennan leik og fá 3 stig á heimavelli og klára þetta almennilega. Það væri skemmtilegt að gera það,” sagði Rúnar Páll að lokum.

Gunnar Heiðar lék sinn síðasta leik á HásteinsvelliVÍSIR/ERNIR

Gunnar Heiðar Þorvaldsson: Strákarnir vildu kveðja mig með sigri á heimavellinum okkar
 
,,Ég gæti eiginlega ekki verið sáttari,” sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, framherji ÍBV eftir sinn síðasta leik á Hásteinsvelli. ,,Við ætluðum bara að gera þetta almennilega í dag og töluðum um það strákarnir að þeir myndu fá að kveðja mig með sigri hérna á heimavellinum okkar. Það gerðist og við áttum það bara skilið.”
 
Var planið ekki fyrir leik að boltanum yrði alltaf komið á Gunnar inn í teig? ,,Jújú, en hann kom bara ekkert oft. Ég þurfti að reyna að taka einhverja hjólara hérna til að til að fá þetta mark en þeir eru góðir varnarlega Stjörnumenn en ég dreg þá bara hina til mín og hinir fá að skora í dag. Mestu máli var að skila 3 stigum,” sagði Gunnar að lokum.