
Það var flottur karakter í liði Stjörnunar á móti ÍBV, eftir að hafa fengið skell í fystu umferð á móti Aftureldingu.
Stjarnan tapaði 35:32 í Olís-deild karla í kvöld þegar liðið lék við meistara ÍBV í Eyjum. Liðið náði forystunni þegar lítið var eftir af leiknum en náðu ekki að halda út gegn öflugu liði ÍBV. Rúnar Sigtryggsson, nýr þjálfari Stjörnunnar, sagðist vera ánægður með það hvernig hans leikmenn nálguðust leikinn.
„Við lögðum upp með að nálgast leikinn öðruvísi heldur en við gerðum í fyrstu umferðinni á móti Aftureldingu. Ég myndi segja að það hafi tekist, þó svo að það vanti nokkra, þá fannst mér að á meðan leiknum stóð þá vantaði ekki neinn. Ég var helvíti ánægður með mína menn, við gáfum allt í þetta. Við vorum komnir sex mörkum undir í fyrri hálfleik og samt náum við að komast yfir á réttu mómenti, þá förum við að hugsa aðeins of mikið. Heilt yfir er ég mjög ánægður en ég hefði viljað að varnarleikurinn hefði verið aðeins betri, mörg mörkin þeirra voru of einföld,“ sagði Rúnar en liði Stjörnunnar var spáð í kringum 7. – 8. sætið á flestum stöðum.
Vörn og markvarsla áttu ekki samleið í liði Stjörnunnar í dag fyrir utan mjög stutta kafla í hvorum hálfleik fyrir sig og má sjá það nokkuð auðveldlega á því að liðið fékk á sig 35 mörk í kvöld.
„Ég myndi segja það, ef maður skoðar hverjir eru að skora mörkin þá er greinilegt að Beggi (Sigurbergur Sveinsson) var mjög áberandi í fyrri hálfleik og línuspilið. Við náðum að loka á það en þurftum að taka Begga út, þá kom Kristján (Örn Kristjánsson) í staðinn og setti mörk sem héldu þeim í við okkur á þessum kafla. Í restina eru það í raun sóknarmistök okkar sem klára leikinn fyrir ÍBV.“
Rúnar segir það vera grátlegt að eftir að liðið hafi komist yfir þegar svona lítið var eftir af leiknum að liðið fái ekki að minnsta kosti stig.
„Það er mjög sárt að fá ekki eitt stig úr þessum leik úr því sem komið var. Við erum í sárum því að strákarnir lögðu sig alla fram, ég ætla samt að vona að þeir skilji að það er miklu skemmtilegra að spila handbolta svona heldur en eins og við gerðum í fyrstu umferðinni. Þetta var allt annað og það var allt annað að stjórna gæjunum heldur en í fyrsta leik.“
Blaðamaður kannaði það hvort að Rúnar hefði hlustað á þáttinn Handkastið sem fór yfir fyrstu umferðina í podcasti, en þar sagði annar af stjórnendum þáttarins að í Stjörnunni væru bara aumingjar. Rúnar vildi ekki svara því.
„Nei, maður rífst ekki við fjölmiðlamenn.“
Nokkrir leikmenn eru fjarri góðu gamni hjá Stjörnunni en þeir Ari Magnús Þorgeirsson, Ari Pétursson og Egill Magnússon eru allir frá vegna meiðsla og þá er Sveinbjörn Pétursson í banni. Heldur Rúnar að liðið muni líta betur út þegar þessir leikmenn skila sér inn?
„Við sjáum til, ég er ánægður með það sem ég var með í dag, mjög ánægður,“ þá sagði Rúnar að hann væri ekki viss um hve langt væri í að þessir leikmenn sem hafa verið að glíma við meiðsli komi inn.
„Ég veit það ekki, þetta gæti verið vika, kannski lengra, en eins og ég segi þá er ég ánægður með það sem ég hef í dag, á því byggjum við í næsta leik.“
Olís-deildin hefur farið af stað með krafti þar sem þrjú jafntefli voru í fyrstu umferðinni og KA-menn unnu stórsigur gegn Haukum norðan heiða í dag.
„Það hefur aldrei neinn orðið meistari í október þannig við skulum bara sjá til hvernig þetta þróast. Deildin fer þó mjög vel af stað með óvæntum úrslitum og þetta er spennandi, það er ekki hægt að segja annað,“ sagði Rúnar að lokum sem sneri til baka í íslensku deildina fyrir tímabilið.
Frétt af mbl.is
Eyjamenn betri á lokasprettinum
Klárlega bæting frá síðasta leik
Aron Dagur Pálsson átti góðan leik í liði Stjörnunnar sem tapaði naumlega 35:32 fyrir meisturum ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld, þegar 2. umferð Olís-deildar karla fór fram.
„Við erum ánægðir með frammistöðuna að mörgu leyti, þetta er klárlega bæting frá síðasta leik, það þurfti ekki mikið til að gera betur en þar. Þetta er mjög góður leikur hjá okkur í 50-55 mínútur en svo gerum við klaufaleg mistök í lokin,“ sagði Aron Dagur en vörn Stjörnunnar var ekki upp á marga fiska þar sem Eyjamenn skoruðu 18 mörk í fyrri hálfleik og 17 í þeim síðari.
„Þetta er auðvitað bara hraður leikur, hann fer 35:32, það eru margar sóknir og mörg færi en vissulega hefði vörnin getað verið töluvert betri.“
Aron Dagur fann sig vel sóknarlega í dag þar sem hann skoraði átta mörk og átti þrjár stoðsendingar.
„Það vantar fullt af fólki hjá okkur og það var aðeins verið að spila upp fyrir mig í dag og það gekk alveg fínt. Þau fóru samt ekki inn þegar þau skiptu máli þarna í lokin,“ sagði Aron Dagur en hann vitnaði þar í tvö skot hjá sér á síðustu mínútunum sem rötuðu ekki í netið. Hann talaði þó um að það hafi verið grátlegt að ná ekki að klára leikinn eftir að hafa verið yfir þegar lítið var eftir.
„Algjörlega, mér fannst við vera komnir með þá um miðjan seinni hálfleikinn, þeir voru í vandræðum sóknarlega, við skoruðum í hverri sókn. Þeir eru með fullt af leikmönnum með gæði sem kikkuðu inn undir lokin og kláruðu þetta fyrir þá.“
Margir leikmenn eru fjarri góðu gamni hjá Stjörnunni en hvernig líst Aroni á framhaldið hjá Stjörnumönnum þegar þessir leikmenn hafa skilað sér inn í liðið?
„Ég er fullur bjartsýni þegar allir hafa komið inn, við með fullan hóp og við spilum eins og menn, þá vinnum við mörg lið í deildinni, það er klárt.“
Hvernig finnst Aroni Olís-deildin hafa farið af stað, þar sem þó nokkuð af óvæntum úrslitum hafa litið dagsins ljós í fyrstu tveimur umferðunum, ber þar helst að nefna 31:20 sigur KA-manna á Haukum fyrr í dag.
„Þú segir mér fréttir þarna, þetta fer vel af stað, þetta eru allt hörkulið. Það hafa tvö lið komið upp með sterkan heimavöll og það verða allir leikir erfiðir leikir, það er klárt mál.“