Stjarn­an tryggði sér í kvöld sæti í úr­slita­leik bik­ar­keppni karla í knatt­spyrnu, Mjólk­ur­bik­ars­ins, eft­ir sig­ur á FH í fjör­ugri undanúr­slitaviður­eign liðanna í Garðabæ. Loka­töl­ur urðu 2:0 og leik­ur Stjarn­an í þriðja sinn til úr­slita og freist­ar þess að vinna titil­inn í fyrsta sinn 15. sept­em­ber næst­kom­andi.

Það var kraft­ur í báðum liðum frá upp­hafi og bar­átt­an í fyr­ir­rúmi. Það gerði leik­inn nokkuð hæg­an en hraðinn fór að aukast eft­ir því sem á leið. Fyrsta færi leiks­ins fékk FH og það var sann­kallað tvö­falt dauðafæri. Steven Lennon slapp þá í gegn og skaut í stöng­ina, frá­kastið barst til Jákup Thomsen en skot hans fór í þverslá á marki Stjörn­unn­ar. Hreint ótrú­legt að sjá.

Lítið var um opin færi eft­ir þetta en bar­átt­an þeim mun meiri. Það dró í raun ekki til mik­illa tíðinda fyrr en rétt und­ir lok fyrri hálfleiks, nán­ar til­tekið á 44. mín­útu, þegar fyrsta mark leiks­ins leit dags­ins ljós. Hilm­ar Árni Hall­dórs­son tók þá horn­spyrnu sem Brynj­ar Gauti Guðjóns­son skallaði og Guðjón Bald­vins­son rak svo enda­hnút­inn á sókn­ina með því að skalla í netið.

FH hef­ur gengið af­leit­lega að verj­ast föst­um leik­atriðum í sum­ar og þetta mark kom eft­ir að Eddi Gomes missti bolt­ann klaufa­lega aft­ur fyr­ir enda­mörk und­ir engri pressu. Dýr­keypt og staðan 1:0 fyr­ir heima­menn í hálfleik.

Stjarn­an lagðist ekki í skot­graf­irn­ar

Síðari hálfleik­ur byrjaði ró­lega en það var meira kapp í FH-ing­um enda má segja að tíma­bilið hafi verið und­ir hjá þeim hvað mögu­leika á titli varðar vegna erfiðrar stöðu í deild­inni. Eft­ir því sem leið á færðist meiri hraði í leik­inn en fær­in voru þó lengi vel af skorn­um skammti.

FH leitaði log­andi ljósi að jöfn­un­ar­marki en Stjarn­an var ekki á því að leggj­ast í skot­graf­irn­ar. Því til und­ir­strik­un­ar var miðjumaður­inn og fyr­irliðinn Bald­ur Sig­urðsson tek­inn af velli og fram­herj­inn Guðmund­ur Steinn Haf­steins­son, tveggja marka maður í síðasta leik, sett­ur inn á í hans stað þegar um 25 mín­út­ur voru eft­ir.

Tím­inn fór svo að renna frá FH-ing­um sem lögðu allt í söl­urn­ar án þess þó að ná að skapa sér nein hættu­leg færi að ráði. Hafn­f­irðing­ar fjölguðu í sókn­inni á kostnað varn­ar­manna en það voru Stjörnu­menn sem áttu síðasta orðið.

Þegar fimm mín­út­ur voru til leiks­loka fékk marka­skor­ar­inn Guðjón Bald­vins­son bolt­ann hægra meg­in í teign­um, renndi hon­um fyr­ir markið þar sem varamaður­inn Guðmund­ur Steinn skoraði af ör­stuttu færi og gull­tryggði 2:0-sig­ur Stjörn­unn­ar og sæti liðsins í bikar­úr­slit­um í þriðja sinn. Von­brigðin sem hafa ein­kennt sum­arið í Hafnar­f­irðinum halda hins veg­ar áfram.

Stjarn­an mæt­ir annaðhvort Breiðabliki eða Vík­ingi Ólafs­vík í úr­slita­leik bik­ars­ins á Laug­ar­dals­velli 15. sept­em­ber. Síðari undanúr­slita­leik­ur keppn­inn­ar fer fram á morg­un.

Mbl.is