Stjarnan burstaði Fjölni á heimavelli sínum í Garðabæ þegar liðin mættust í áttundu umferð Pepsi deildar karla í dag. Sjö mörk voru skoruð í leiknum sem fór 6-1 fyrir Stjörnunni.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð rólegur til að byrja með og jafnt með liðunum. Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom heimamönnum yfir á 27. mínútu eftir hraða sókn Stjörnunnar en varnarmaðurinn Bergsveinn Ólafsson jafnaði fyrir Fjölni undir lok hálfleiksins upp úr hornspyrnu.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks braut Þórður Ingason, markmaður og fyrirliði Fjölnis, á Þorsteini Má Ragnarssyni á vítateigslínunni og uppskar fyrir það gult spjald. Hátt ákall var úr stúkunni sem og frá leikmönnum inn á vellinum að liturinn hefði verið annar á spjaldinu. Þórður meiddist hins vegar við samstuðið við Þorstein og hann gat ekki haldið áfram leik í seinni hálfleik. Í hans stað kom Hlynur Örn Hlöðversson í sínum fyrsta leik í efstu deild karla. Markmaðurinn ungi, sem fæddur er árið 1996, er þó ekki eini sökudólgurinn í því sem gerðist næst.

Strax í upphafi seinni hálfleiks fengu Stjörnumenn vítaspyrnu þegar brotið var á fyrirliðanum Baldri Sigurðssyni innan vítateigs. Hinn öruggi spyrnumaður Hilmar Árni Halldórsson skoraði og kom Stjörnunni yfir. Vítaspyrnudómurinn virtist eitthvað hafa slegið Fjölnismenn út af laginu en það var eins og þeir hefðu gleymt því hvernig á að verjast.

Á tíu mínútum bættu Stjörnumenn við fjórum mörkum og kaffærðu Fjölni. Hrun Fjölnis var hreint ótrúlegt og annað eins vart sést í manna minnum.

Eftir að staðan var orðin 6-1 róaðist aðeins yfir leiknum. Gestirnir úr Grafarvogi vissu hins vegar að það var engin leið til baka og var fátt um fína drætti það sem eftir lifði leiks.

Stórsigur Stjörnunnar staðreynd og Garðbæingar lyfta sér í fjórða sæti deildarinnar. Það er nokkuð áhugaverð staðreynd að þegar þessi lið mættust síðast, í mars mánuði í Lengjubikarnum, voru einnig skoruð sjö mörk, en í þeim leik fór Fjölnir með sigur.

Afhverju vann Stjarnan?
Þessi kafli í upphafi seinni hálfleiks fór með leikinn. Það er oft gripið til þess orðalags að segja að menn hafi verið að keppa við börn, en sá samanburður hefur líklega sjaldan átt eins vel við. Sprengikrafturinn í þeim bláklæddu var gífurlegur og eftir svona rothögg hefði þurft kraftaverk til þess að Fjölnir fengi eitthvað út úr leiknum.

Þá er vert að minnast á að brot Þórðar í lok fyrri hálfleiks var ákveðinn vendipunktur. Hefði hann fengið rautt spjald þá hefðu úrslitin mögulega orðið allt önnur því Stjörnumenn fundu kraft í því að þeim fannst á sér brotið.

Hverjir stóðu upp úr?
Valið um mann leiksins stóð á milli Guðmundar Steins Hafsteinssonar og Hilmars Árna Halldórssonar. Guðmundur fær titilinn eiginlega af því að hann setti tvö mörk en Hilmar bara eitt. Þeir voru báðir mjög góðir í þessum leik, ógnuðu fram á við og unnu vel í sínum stöðum. Þá var Þorsteinn Már Ragnarsson einnig mjög góður og bæði Guðjón Baldvinsson og Baldur Sigurðsson voru áberandi þar til þeir fóru út af um miðbik seinni hálfleiks.

Hvað gekk illa?
Í fyrri hálfleik gekk Fjölnismönnum illa á síðasta þriðjungnum. Þeir voru að spila virkilega vel og koma sér í góðar stöður en oftar en ekki voru sendingarnar inn í teiginn einfaldlega ekki nógu góðar og oft á tíðum hreint út sagt lélegar.

Það bliknar hins vegar í samanburði við hörmungina í vörninni í síðari hálfleik.

Hvað gerist næst? 
Það styttist í að nokkurskonar hlé verði gert á deildinni vegna HM svo það er spilað þétt þessa dagana og hefst næsta umferð strax á miðvikudag. Þessi lið eiga hins vegar bæði leik á fimmtudag, Fjölnir fær Grindvíkinga í Grafarvoginn og Stjarnan fer til Akureyrar og sækir KA heim.
 visir.is